Skip to Content

Golfklúbbur Kiðjabergs Kiðjabergsvöllur GKB

Jörðin Kiðjaberg í Grímsnesi.

Lauslegt ágrip af sögu.

Lengd af gulum teigum: 5429 metrar. Slope: 70.1

Lengd af rauðum kvennateigum:  4643 metrar. Slope: 71.4

Golfklúbbur Kiðjabergs  er í Grímsnesi í Árnessýslu og var stofnaður 1993. Völlurinn liggur með bökkum Hvítár sem rennur meðfram nokkrum brautum vallarins. Hannes Þorsteinsson hannaði völlinn og var frá upphafi ráðgert að hann yrði 18 holur. Til að byrja með var byggður 9 holu völlur sem tekinn var í notkun1993 en hafist var handa við byggingu hans 1989.  Nýr 18 holu golfvöllur í landi Kiðjabergs var formlega opnaður 18. júní 2005.  Eitt af því sem aðgreinir Golfklúbb Kiðjabergs frá flestum öðrum golfklúbbum í landinu er að hann er í einkaeign og hefur klúbburinn sjálfur fjármagnað alla uppbyggingu, tækjakaup og rekstur vallarins. Meistarafélag Húsasmiða á landið og kemur félagið að ýmsum þáttum í uppbyggingu og rekstri klúbbsins eins og til dæmis uppbyggingu á félagsaðstöðu og fleiru. Vallarstæðið er glæsilegt og útsýni víða stórfenglegt auk þess sem Hvítá setur sterkan svip á völlinn.

Fáir íslenskir golfvellir bjóða upp fallegra umhverfi og útsýni heldur en Kiðjabergsvöllur. Hvítáin sem rennur vestan við völlinn, setur mark sitt á vallarstæðið og kylfingar geta átt von á krefjandi göngu í gullfallegu landslagi.  Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kiðjabergsvöllur verið vettvangur fjölmargra  Íslandsmóta frá því hann var stækkaður í 18 holur. Stærsti viðburðurinn er án efa Íslandsmótið í höggleik sem haldið var á vellinum árið 2010, en einnig hafa verið haldin þar Íslandsmótið öldunga og kylfinga 35 ára og eldri, 2008 og 2011. Íslandsmótið holukeppni 2009 og Sveitakeppni unglinga 2009, Sveitakeppni 2 deild 2010 og Íslandsmót unglinga í höggleik 2012. Alls hafa verið haldin á vellinum 6 Íslandsmót á síðustu fimm árum.

Jörðin Kiðjaberg er fornfræg óðalsjörð og er hennar getið í Landnámu Ara fróða.  Á miðöldum komst jörðin undir Skálholtsstól eins og fjölmargar aðrar jarðir og má enn sjá hluta nautagarðs Brynjólfs biskups sem leiguliðar voru látnir hlaða upp í þegnskilduvinnu. Árið 1868 settist Þorsteinn Jónsson kanselíráð að á Kiðjabergi og var sýslumaður Árnesinga til 1879. Afkomendur hans sátu jörðina meðan hún var í ábúð allt fram  á níunda áratug tuttugustu aldar. Jörðin Kiðjaberg er um 500 hektarar og afmarkast af Hvítá og Hestvatni annarsvegar og jörðunum Arnarbæli, Gelti og Hesti hins vegar. Gamla sýslumannshúsið sem byggt var 1869 stendur enn á Kiðjabergi og er það talið elsta timburhús í sveit á suðurlandi. Meistarafélag Húsasmiða í Reykjavík keypti jörðina 1989 og var ætlunin að þar yrði orlofsaðstaða fyrir félagsmenn. Við eigendaskiptin var landið endurskipulagt og gert ráð fyrir viðamikilli sumarhúsabyggð með opnum svæðum til leikja og skógræktar.

Ýmsum þótti djarft þegar nokkrir áhugasamir kylfingar í Meistarafélagi húsasmiða í Reykjavík hófu að útbúa 9 holu golfvöll í landi Kiðjabergs og ekki síður þegar þegar nokkrir eldhugar ákváðu að nú væri tími til kominn að völlurinn yrði 18 holur. En þessar efasemdaraddir þögnuðu fljótt.  Hafist var handa við vinnu á eldri hluta vallarins, sem Hannes Þorsteinsson hannaði, árið 1989 og sumarið 2002 hófst vinna við gerð nýju brautanna sem liggja upp með Hvítánni í norður en hönnuður þeirra er Vallarnefnd  klúbbsins í samráði við Harald Má Stefánsson sem var vallastjóri á þeim tíma . Byrjað var á að ryðja fyrir fyrstu 5 holunum og var þeirri vinnu að mestu lokið um haustið. Sumarið 2004 var búið að tyrfa teiga og brautirnar orðnar vel grónar en sáð hafði verið í þær sumarið áður. 18. júní 2005 var 18 holu golfvöllur Kiðjabergsmanna formlega tekinn í notkun.

Reistur var skáli við völlinn árið 1993. Árið 2007 gerðu ASK Arkitektar tillögu að nýju og glæsilegu klúbbhúsi. Um var að ræða stórt og veglegt hús með gistiaðstöðu í 12 herbergjum. Þegar kostnaðaráætlun lá fyrir kom í ljós að kostnaðurin við byggingu slíks mannvirkis yrði of mikill og ákveðið var að leggja tillöguna til hliðar og fara aðra og ódýrari leið. Sömu aðilar voru fengnir til þess að koma með tillögu að stækkun á núverandi klúbbhúsi í 223 fermetra.  Teikningarnar voru lagðar fyrir félaga í Meistarafélag Húsasmiða sem samþykktu þær og að farið yrði í þessar framkvæmdir. Árið eftir var hafist handa við stækkunina og stóð Meistarafélagið straum af kostnaðinum við hana.  Ljóst er að afar mikilvægt er fyrir klúbb eins og Golfklúbbsins Kiðjabergs að hafa bakhjarl eins og Meistarafélag Húsasmiða.

2008 voru félagar í klúbbnum 280 og hafði farið hratt fjölgandi næstu ár á undan.  Árið 2007 hafði til að mynda fjölgað um 50 manns í klúbbnum. Félagar í Golfklúbbi Kiðjabergs hafa lagt fram mikla sjálfboðavinnu við uppbyggingu á svæðinu. Félagafjöldi 2013 er um 400 manns.